fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Reykvíkingarnir Kolbrún og Arnþrúður mjög óánægðar með borgarmálin: Sigmundur Davíð nýr oddviti Framsóknar?

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 10. mars 2017 19:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þær Kolbrún og Arnþrúður í Eyjunni á ÍNN.

Kolbrún Bergþórsdóttir ritstjóri DV og Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu sem báðar eru búsettar í Reykjavík, lýstu megnri óánægju með stjórnmálin í Reykjavíkurborg þegar þær áttu spjall við Björn Inga Hrafnsson í þættinum Eyjan á ÍNN.

Borgarmálin voru tekin til umræðu þar sem nú er aðeins rétt rúmt ár til næstu sveitarstjórnarkosninga.

Komið var inn á samgöngumál, skipulagsmál, möguleika núverandi borgarstjórnarmeirihluta og borgarstjóra á að halda stöðu sinni. Einnig var rætt um frammistöðu minnihlutans í borginni og þeirri spurningu varpað fram hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson alþingismaður og fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins muni taka keflið sem oddviti lista Framsóknarsflokksins í borgarstjórnarkosningunum sem nálgast nú hratt.

Ritstjóri DV hóf mál sitt með því að lýsa mikilli óánægju með frammistöðu núverandi borgarstjórnarmeirihluta:

Ég er alveg hundóánægð. Það er margt sem ég er óánægð með. Ég er óánægð með samgöngustefnuna. Ég tek strætó á hverjum degi og mér finnst það móðgun við borgarbúa að segja að þeir eigi bara að leggja einkabílnum og taka strætó vegna þess að ég veit alveg hvernig strætósamgöngur eru hér í Reykjavík. Þú getur sagt þetta við fólk ef strætó kemur á tíu mínútna fresti. Þá geturðu sagt: „Heyrðu, það borgar sig fyrir ykkur.“ Það er bara ekki þannig.

Kolbrún sagði að borgarstjórnarmeirihutinn í Reykjavík talaði af fullkomnum hroka til borgarbúa og fjölskyldufólks. Henni þætti ágætt að fara í strætó en hún ráðlegði engum að gera það, meðan samgöngurnar væru eins og þær eru. Sem dæmi mætti nefna að fólk með börn gæti ekki notað strætó.

Kolbrún Bergþórsdóttir tjáði sig einni um þróun byggðar í Reykjavík.

Annað er það, kannski er ég bara of mikill fagurkeri. Þessi borg er að verða alveg forljót og það er öllum sama. Það er verið að rífa gömul hús, hótel vaxa hérna eins og gorkúlur. Það er verið að byggja hérna hús sem eru skrímsli, þau bara æpa á mann í ljótleika sínum. Enginn segir neitt við þessu. Eftir áratug, hvar á að verða eftir fallegur blettur í þessari borg? Þurfum við að fara til Prag í gamla bæinn þar? Hérna er algert gullgrafaraæði og það er eins og verktakar ráði borginni en ekki borgarstjórn, eins og verkakar hafi eitthvað vald á meirihlutanum í borgarstjórn. Og hvar er minnihlutinn? Finnst honum þetta allt í lagi? Sem borgarbúi þá er þetta eitthvað sem ég hef miklar áhyggjur af.

Arnþrúður lýsti sig mjög sammála mörgu því sem Kolbrún hefði komið inn á.

Ég veit satt að segja ekki á hvaða vegferð þessi borgarstjórn er. Þetta eru mikil vonbrigði að þeir skuli hafa haldið svona á málum.

Sem yfirlýstur sósíaldemókrati var Kolbrún spurð hvað henni þætti um stöðu Samfylkingarinnar og Dags B. Eggertssonar:

Í tökuveri ÍNN þar sem Björn Ingi Hrafnsson ræddi við þær Kolbrúnu og Arnþrúði.

Það þyrfti svo margt að breytast til þess að Samfylkingin fengi hljómgrunn. Pólitísk rétthugsun held ég að sé eitt af því hafi orðið henni að falli. Maður vissi alltaf nákvæmlega hvaða afstöðu flokkurinn myndi taka til mála. Það var ákveðin þröngsýni þarna. Þetta var svona ákveðinn hópur sem að stjórnaði Samfylkingunni og skildi svo aldrei þegar maður var að tala um að „þið þurfið að fara meira inn á miðjuna, inn til fólksins.“ Þau skildu það ekki.

Kolbrún taldi þó staða Dags væri ekki vonlaus þó flokkur hans lægi í sárum:

Ég held hins vegar að það sem geti bjargað Degi [B. Eggertssyni] í borginni er það hvað minnihlutinn er arfaslappur. Það er eiginlega einn mesti skandall bara í pólitík seinni ára, hvað minnihlutinn í borginni er máttlaus og áhugalítill.

Björn Ingi spurði hvað ylli þessu? Þetta væri undarlegt í ljósi þess að eitt sinn hefði Reykjavík þótt sjálf krúnan í djásni Sjálfstæðisflokksins þar sem flokkurinn fór með forystu í borgarstjórn um áratuga skeið. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn sem kunnugt er í minnihluta.

Þarna hefur vantað hreinlega leiðtoga, sem að þjóðin tekur mark á. Einhvern með útgeislun, sannfæringarkraft. Hann er ekki þarna og þeir virðast eiga í miklum erfiðleikum með að finna þannig manneskju,

sagði Kolbrún Bergþórsdóttir. Arnþrúður lagði orð í belg og spurði hvaða sérstöðu Dagur B. Eggertsson ætlaði að sýna fram á í borginni í komandi kosningabaráttu? Ýmislegt ætti eftir að koma til umfjöllunar á næstu mánuðum. Hún spurði einnig hvort Dagur ætlaði að halda áfram að kvarta undan því að hann hafi ekki getað staðið við kosningaloforð og það sé ríkisstjórninni að kenna að ungt fólk getur ekki eignast húsnæði?

Það kaupir enginn þennan flugmiða lengur.

 

Leiðir Sigmundur Davíð Framsókn í Reykjavíkurborg?

Kolbrún Bergþórsdóttir sagði að kjósendur yrðu að sjá einhvern annan valkost gegn núverandi borgarstjóra en það sé reyndar ekkert í boði. Síðan varpaði ritstjóri DV, sem líklega fréttir sitt lítið af hverju, fram spurningu sem fékk vafalítið marga til að sperra eyrun:

Ég hef reyndar heyrt það, ég veit ekki hvort þú [Björn Ingi] hefur heyrt það, að Framsóknarmenn vilji Sigmund Davíð í borgina?

Björn Ingi Hrafnsson svaraði engu um þetta og Kolbrún bætti við:

Það má ýmislegt segja um Sigmund Davíð, hann er umdeildur og allt það, en í skipulagsmálun þá talaði hann máli skynseminnar. En af því að það var hann, þá var ekki hægt að hlusta, þá varð að hlæja hæðnislega og gera grín að honum.

Arnþrúður sagði þá að þetta væri hluti af hinni breyttu umræðuhefð í landinu. Ekki síst á netinu, þar sem ríkti offors með persónulegum árásum á fólk ef það væri ekki skoðanalega í takt við það sem önnur öfl kysu.

Hér má sjá viðtalið við þær Kolbrúnu Bergþórsdóttur og Arnþrúði Karlsdóttur:

https://vimeo.com/207676277

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Í gær

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun