fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Gamalt íslenskt fiskiskip á að færa Norðmönnum gull

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 17. febrúar 2017 11:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lundey, eitt elsta fiskiskip íslenska flotans, hefur legið misserum saman verkefnalítið í Akraneshöfn. Nú hafa Norðmenn keypt þetta skip sem Íslendingar kærðu sig ekki um fyrir aðeins 124 milljónir króna og ætla að stórgræða á henni.

HB Grandi hefur selt uppsjávarveiðiskipið Lundey til Noregs. Skipið hefur legið ónotað að mestu um misseraskeið í Akraneshöfn og algerlega verkefnalaust síðan nýsmíðarnar Venus og Víkingur komu til landsins. Lundey sem að upphafi til hefur verið í þjónustu Íslendinga síðan 1960 er þegar farin til Noregs. Þangað var hún seld fyrir 124 milljónir íslenskra króna. Hlutverki skipsins virðist hvergi lokið. Rætist væntingar Norðmanna sem keyptu skipið þá mun Lundey nú brjóta blað í nýtingu nytjastofna í Atlantshafi og skila eigendum sínum glóandi gulli í farmavís. Landshlutafréttablaðið Vesturland greinir frá þessu.

Í Noregi verður Lundey útbúin til veiða á laxsíld. Margar fiskitegundir tilheyra hópi laxsílda og er gulldeplan einna algengust. Þetta eru smávaxnir svartir fiskar búnir ljósfærum sem senda frá sér litla blossa í hafdjúpunum. Laxsíld finnst í geysilegu magni á um 200 til 1.000 metra dýpi yfir úthafinu í öllum heimshöfum en stendur oft dreift í sjónum. Vísindamenn telja að milljarðir tonna finnist af þessum fiskum í höfunum. Þessir fiskistofnar hafa nánast ekkert verið nýttir af mannkyninu en teljast mikilvæg fæða fyrir ýmsa fiska og hvali.

Laxsíldir munu finnast víða og í veiðanlegu magni – líka í lögsögu Íslands. Íslendingar hafa hins vegar ekki áhuga á að nýta þennan litla fisk sem verður vart stærri en 10 sentimetra langur.

Nú ætla Norðmenn að breyta þessu. Norska sjávarútvegsblaðið Fiskeribladet greindi frá því í janúar sl. að Fiskistofa Noregs sé nú búin að úthluta tæplega 20 tilraunaveiðileyfum til laxsíldaveiða til útgerða norskra uppsjávarveiðiskipa. Þar í hóp eru margar af öflugustu uppsjávarútgerðum Noregs sem hingað til hafa einkum einbeitt sér að veiðum á tegundum á borð við síld og makríl. Þessar útgerðir eru í Vestur-Noregi.

Norska fyrirtækið Hordafor mun vera einn af hinum nýju eigendum Lundeyjar. Það hefur meðal annars sérhæft sig í að vinna meltu úr fiskafurðum sem síðan er notuð til framleiðslu á fóðri fyrir eldislax. Melta er búin til þannig að maurasýru er blandað saman við fisk og fiskúrgang. Sýran leysir þetta upp þannig að úr verður grautur sem er ríkur af eggjahvítuefnum og fitu sem nýtist í lýsisframleiðslu.

Nú ætla Norðmenn að hefja veiðar á laxsíld og þá einkum gulldeplu.

Þetta getur valdið byltingu í laxeldinu þar sem þörfin er sífellt að aukast fyrir lýsi og eggjahvítu úr sjávarafurðum til að nota í fóðrið,

segir Odd Karsten Østervold við Fiskeribladet. Hann er þekktur frumkvöðull í norsku atvinnulífi, stofnandi og einn helsti hluthafi Hordafor og hefur byggt fyrirtækið sem eitt það helsta á sínu sviði í Noregi. Østervold segist geysilega spenntur fyrir því að senda Lundey á laxsíldaveiðar. Sennilega verður sýrunni blandað beint við aflann um borð í skipinu og þannig búinn til meltugrautur í lestum skipsins sem síðan verður einfaldlega dælt í land til framleiðslu á fóðri og lýsi. Það er mikið af fitu og eggjahvítaefnum í laxsíldinni.

Þetta er svo fáránlega spennandi verkefni að mér finnst ég sé kominn aftur á tvítugsaldurinn,

segir Østervold sem stendur á sextugu.

Lundey er nú farin til Noregs og heitir Mokstein. Nafnið er við hæfi því nýjir eigendur segjast ætla moka upp með henni hreinu gulli. Norskir eldislaxar hafa ómettanlega þörf fyrir fóður.

Íslendingar veiddu laxsíld og þá einkum tegundina gulldeplu um tíma eftir efnhagshrunið 2008. Veiðarnar voru stundaðar með flotvörpum undan Suðurlandi. Gárungarnir kölluðu gulldepluna „kreppukóð.“

Áhuginn á veiðiskapnum dvínaði fljótt og veiðar lögðust af því gulldeplan þótti erfitt hráefni.

Engar sögur fara af íslenskum laxsíldaveiðum mörg undanfarin ár. Norðmenn hafa hins vegar velt fyrir sér möguleikunum og telja sig nú hafa fundið réttu aðferðirnar til að búa til mikil verðmæti úr fiskinum.

Íslendingarnir hafa veitt gulldeplu en það hefur komið í ljós að fiskurinn leysist upp og hráefnið skemmist eftir nokkurra daga geymslu í lestum skipa og þess háttar. Fiskmjölsframleiðendur kæra sig því ekki um gulldepluna. Þetta hentar okkur hins vegar vel því við ætlum að nota gulldepluna í framleiðslu á meltu,

útskýrir norski fóðurframleiðandinn. Hann bendir á að ef það takist að nýta laxsíld til laxafóðurs þá muni það gefa ýmsa möguleika. Laxsíldina er ekki hægt að nýta beint til manneldis eins og síld, loðnu og makríl. Hins vegar verði hægt að beina þessum nytjastofnum í auknum mæli til manneldis í stað þess að bræða slíka fiska í mjöl og lýsi, en nota laxsíldina í laxafóður í staðinn.

Þetta er þvílíkt umhverfisvænt.

Odd Karsten Østervold segir að norskir fóðurframleiðendur séu búnir að bíða eftir einmitt svona tækifæri í fjölda ára.

Þetta á eftir að ganga stórkostlega vel og verða svakalegur bísniss,

segir hinn nýji og bjartsýni útgerðarmaður Lundeyjar.

Smellið á myndina til að lesa nýjasta Vesturland á netinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins