Eyjan

Bleikt

Orðið á götunni

Af samherjum

Fimmtudagur 19.apríl 2018
Eyjan

Hversu lengi endist Trump?

Egill Helgason skrifar
Fimmtudaginn 16. febrúar 2017 20:00

Donald Trump er á leiðinni að verða sá forseti Bandaríkjanna sem hefur setið næst styst í embætti – eða þá gæti forsetaferill hans orðið sá þriðji stysti.

Þetta skrifar sagnfræðingurinn Ronald L. Feinman, en hann er sérfræðingur í sögu Bandaríkjaforseta. Feinman segir að hneykslismálin sem hlaðist upp kringum Trump verði þess valdandi að Repúblikanar muni neyðast til að grípa til ráða til að koma honum burt. Það sé nær óhjákvæmilegt að Mike Pence varaforseti verði forseti í nálægri framtíð.

Mál Michaels Flynn, sem sagði af sér í vikunni, muni verða rannsakað enn frekar. Aldrei fyrr hafi forseti lent í svo stóru hneykslismáli svo snemma á ferlinum. Það séu talsverðar líkur á því að hann verði sjálfur sakaður brot í starfi. Óstöðugleiki Trumps í utanríkismálum sé líka farinn að valda miklum áhyggjum, hann ógni stöðu Bandaríkjanna á erlendri grund og öryggi sjálfs ríkisins.

Áhrifamiklir Repúblikanar geri sér grein fyrir þessu og þeir muni ekki líða að algjör ringulreið ríki í Hvíta húsinu til lengdar. Jeb Bush reynist hafa rétt fyrir sér, hann sagði á sínum tíma að Trump væri frambjóðandi glundroðans og hann yrði forseti glundroðans.

Í þessu er Pence lykilmaður, hann er reyndar ekki sérlega vinsæll, hann hefði sennilega tapað endurkjöri sem ríkisstjóri í Indiana, en nú hafi hann það verkefni að reyna að lempa Trump. Það gengur ekki sérlega vel. En Pence hefur reynslu úr stjórnkerfinu eftir að hafa setið 12 ár í fulltrúadeildinni.

Sá Bandaríkjaforseti sem hefur stetið styst er William Henry Harrison, sem dó eftir 31 dag úr lungnabólgu. Næst kemur James A. Garfield sem var skotinn og dó af sárum sínum eftir 199 daga í embætti 1881. Feinman skrifar að ekki sé víst að Trump endist svo lengi, og hann segir að nærri öruggt sé, miðað við atburðarásina undanfarna daga, að hann sitji skemur en Zachary Taylor sem dó úr magasjúkdomi eftir 16 mánuði og 5 daga í embætti.

 

William Henry Harrison var forseti Bandaríkjanna í 31 dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af