Eyjan

Ekki forgangsmál að lækka skuldir ríkisins: Vill vextina niður í 2,5%

Ritstjórn Eyjunnar skrifar
Miðvikudaginn 15. febrúar 2017 11:49
Smári McCarthy.

Arðgreiðslur bankana duga til þess að koma ríkisskuldum í ágætis horf ef vaxtastigið yrði lægra.

Þetta segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata, en hann sjá stýrivexti Seðlabankans lækka niður í 2,5% — það sé miklu brýnna en borga niður skuldir ríkissjóðs.

„Rekstur ríkissjóðs er ekki í góðu ástandi í augnablikinu. Það er bara það að við erum í mikilli hagsveiflu sem gerir það að verkum að getum rekið hlutina að einhverju leyti þokkalega. Við þurfum að laga þetta. Ein leiðin til þess er að halda áfram að lækka ríkisskuldir en það skiptir miklu meira máli í þessu samhengi að reyna að ná vöxtunum niður, því þar liggur banabitinn í öllu,“ sagði þingmaðurinn í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Hann telur miklu meira hagsmunamál fyrir fólkið í landinu og ríkissjóð að lækka vextina á skuldum ríkisins úr þeim 5-5,5% sem eru núna. Takmarkið eigi að vera 2,5%.

Á fésbókinni nú undir hádegi útskýrir þingmaðurinn betur orð sín:

„Kannski til að útskýra aðeins betur varðandi vaxtalækkun: ég geri ekki ráð fyrir að það sé auðvelt eða fljótgert, enda afar flókið mál. Ekki bara gagnvart gengi og fjárfestingum, heldur líka heildræn áhrif á fjármagnsflæði. En ljóst er að vextir á Íslandi eru óeðlilega háir, sem hefur slæm áhrif vítt og breitt um kerfið. Við eigum því að stefna að því að ná vaxtastiginu niður, hratt og örugglega, en án þess að það hleypi öðrum hlutum hagkerfisins í uppnám.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af