fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Sigmundur Davíð í Eyjunni: Kallaði eftir nýrri nálgun og útilokaði ekki að stofna nýjan flokk

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 11. febrúar 2017 14:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra í myndveri Eyjunnar. Eyjan/Ari Brynjólfsson

Eins og greint hefur verið frá þá var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson alþingismaður, fyrrum forsætisráðherra og fyrrum formaður Framsóknarfloksins gestur í fyrsta þætti Eyjunnar á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þátturinn var frumsýndur á fimmtudagskvöld.

Sigmundur Davíð talaði um í þættinum að mikil gerjun eigi sér nú stað í stjórnmálum, bæði á Íslandi og á Vesturlöndum. Hann sagðist sannfærður um að hér á landi og víðar séu nú runnir upp sögulegir tímar. Stjórnmálamenn og flokkar þeirra verði að laga sig að nýju kalli tímans ef þeir ætli að eiga einhvern möguleika á að sinna hlutverki sínu.

Við erum hérna með einhverja ríkisstjórn sem er sett saman bara til að útdeila einhverjum ráðuneytum og vera svo að sinna einhverjum áhugamálum sínum eins og hafa meira úrval af geitaosti og hvítvíni í matarbúðum. Á sama tíma eru að verða miklar grundvallarbreytingar í því hvernig pólitíkin virkar og hvernig stjórnmálaflokkar starfa og stjórnmálamenn. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnmálalandslagið á Íslandi verði aldrei aftur eins og það var fyrir nokkrum árum og marga marga áratugi þar á undan.

 

Telur að stjórnmálin standi á tímamótum

Sigmundur Davíð sagði að hefðbundið flokkakerfið á Íslandi sé nú að riðlast. Það muni taka enn meiri breytingum með tíð og tíma. Í þessu samhengi yrði að líta til þróunarinnar víða annars staðar á Vesturlöndum. Mikil gerjun eigi sér stað meðal almennings. Þróunin sé hröð. Stærsta breytingin sé  kjör Donalds Trump sem Bandaríkjaforseta.

Bandaríkjamenn kusu Donald Trump, ekki vegna þess hvernig hann er, hvernig hann talar og hagar sér, – heldur þrátt fyrir það. Þeir voru tilbúnir að kjósa þennan mann, eins og hann lét, bara vegna þess að þeir vildu henda sprengju inn í kerfið. Fyrst og fremst umfram allt, fá einhvern sem að myndi hrista upp í kerfinu….Við vorum að færast yfir í kerfisræði frá lýðræði. Svo verða ákveðnar breytingar sem setja af stað viðsnúning hvað þetta varðar. Uppreisn gegn kerfinu hefst og því miður í flestum tilvikum það sem af er, tekur hún á sig mynd öfga til hægri eða vinstri. Í grófum dráttum þannig að í ríkjum þar sem hefur verið mikill fjöldi innflytjenda eru þetta svona þjóðernisjaðarflokkar. Í ríkjum sem fóru illa út úr fjármálakrísunni eru þetta meira svona anarkistar og kommúnistar; Píratar eins og við kynntumst hér.

Í máli Sigmundar Davíðs kom fram að hann teldi að Framsóknarflokkurinn hefði verið á réttri leið í hans formennskutíð:

Ég er þeirrar skoðunar að það sé bara ein leið til að bregðast við þessu og Framsóknarflokkurinn hafi kannski verið með formúluna á því á árunum 2009 til 2016. Það er það sem ég hef kallað róttæka rökhyggju. Það er að segja, að leyfa sér að meta hlutina bara út frá „common sense,“ rökræða þá, komast að staðreyndum hvað sé skynsamlegast í hverju tilviki, en þora síðan að berjast fyrir því þó að það kosti baráttu við kerfið, þó að það kosti töluverðan pólitískan slag.

Þarna skírskotaði Sigmundur Davíð meðal annars til Icesave-málanna og meðferðarinnar á slitabúum gömlu bankanna. Miðjan og hefðbundnir stjórnmálaflokkar yrðu að hafa kjark til að takast á við kerfið og gera það sem væri rökrétt hverju sinni en láta ekki kúgast af pólitískri rétthugsun. Að öðrum kosti myndu jaðarflokkar til hægri og vinstri eflast á þeirra kostnað.

Flokkarnir þurfa líka að þora að ræða þau mál sem að rétttrúnaðurinn bannar nánast umræðu um. Ég er þeirrar skoðunar að Donald Trump hafi fyrst og fremst sem forseti, verið búinn til af yfirlætisfullum vinstri mönnum, reyndar ekki bara vinstri mönnum- yfirlæti kerfisins skulum við segja sem fór mjög frjálslega með orð eins og „rasisti.“ Stór hluti Bandaríkjamanna voru bara kallaðir „fasistar“ og „rasistar“ og öllum illum nöfnum; fólk sem hafði kannski bara áhyggjur af vinnunni sinni og framfærslu fjölskyldu sinnar og var ekki alveg búið að sjá hvernig stefna í innflytjendamálum samræmdist þeirra hagsmunum. Í stað þess að rökræða við þetta fólk þá var það bara afskrifað sem vitleysingar og rasistar. Vinsti flokkar sérstaklega hurfu, nánast algerlega í Evrópu og reyndar Demókrataflokkurinn að miklu leyti í Bandaríkjunum,  – frá því að vera talsmenn vinnandi fólks og urðu svona menntaelítuflokkar.

Sigmundur Davíð telur að vinstra fólk og fleiri hafi vanmetið stöðu mála:

Það er vegna þess að þetta fólk er of lokað inni í sínum heimi, alltaf að tala saman í hring. Og gleymdi á nákvæmlega sama hátt og menn gleymdu þögla meirihlutanum í Brexit-kosningunum í Bretlandi, að það er til heimur utan við þá sem eru duglegastir á netinu eða eru mest áberandi í háskólasamfélaginu. Það er einmitt það orð sem er lýsandi fyrir hugarheiminn, að þeir fóru að tala um sín eigin samfélög; „Menntasamfélagið,“ „Háskólasamfélagið. “ Eins og það væri ekki hluti af okkar samfélagi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Björn Ingi Hrafnsson í myndveri Eyjunnar.

Í framhaldi af þessu barst talið að Framsóknarflokknum. Auðheyrt var að ekki er að fullu gróið yfir þau sár sem mynduðust þegar Sigmundur Davíð varð að hætta sem forsætisráðherra og tapaði í kjölfarið formennskusætinu í Framsóknarflokknum.

Sigmundur sagði að sá hópur sem hefði náð meirihluta með fjandsamlegri yfirtöku á flokksþinginu hefði mjög ólíka sín frá honum á það hvernig Framsóknarflokkurinn virki sem best fyrir almenning.

Ég held hins vegar ekki að meirihluti flokksmanna í Framsóknarflokknum sé á þeirri línu. En það verður tíminn bara að leiða í ljós, hvar Framsóknarflokkurinn vill staðsetja sig. Hvers konar stjórnmálaflokkur hann vill verða. En ef að hann bregst ekki við kalli tímans sem ég kalla svo, þá munu einhverjir aðrir flokkar gera það. Það er orðið miklu auðveldara heldur en áður var að stofna stjórnmálaflokka.

Hann var spurður að því hvað hann ætlaði að gera? Hvort hann ætlaði að tala fyrir stefnu sem væri allt önnur en hjá forystufólki flokksins eða reyna aftur að móta stefnu flokksins?

Ég er algerlega sannfærður um að ef flokkurinn ætlar að ná árangri til framtíðar þá þurfi hann að þora. Já, að þurfa að þora. Það vantaði kannski svolítið á það hjá hluta þess hóps sem stóð fyrir þessari yfirtöku á flokksþinginu.

Sigmundur bætti því við að hann hefði farið örðuvísi í kosningabaráttu flokksins síðasta haust en ný forysta kaus að gera. Eins og kunnugt er beið Framsóknarflokkurinn mikið afhroð í þeim kosningum.

Aftók ekki þann möguleika að stofna nýjan stjórnmálaflokk

Björn Ingi Hrafnsson spurði þá Sigmund hreint út hvort hann hafi velt því fyrir sér að stofna nýjan stjórnmálaflokk? Sigmundur Davíð svaraði því ekki þvert neitandi. Þetta sagði hann:

Ég er í Framsóknarflokknum vegna þess að ég tel að Framsóknarflokkurinn, þessi hundrað ára gamli flokkur, eigi svo sannarlega erindi og geti verið það sem hann var. Á sama tíma elsti

Sigmundur Davíð ásamt Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur eiginkonu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins í Háskólabíói sem var haldið 1. og 2. október 2016. SigmundurMynd: DV/Sigtryggur Ari

og nýjasti flokkurinn. Á sama tíma flokkurinn sem er með lengstu söguna, en líka mestu framtíðina. En það er ekkert launungarmál að það eru greinilega ekki allir sama sinnis hvernig eigi að haga þeim hlutum. Þannig virkar lýðræðið. Ég sem félagi í flokknum mun auðvitað bara beita mér fyrir því að flokkurinn sé eins og ég tel nauðsynlegt til að hann geti gert gagn fyrir samfélagið. Hann verður umfram allt að passa sig á að verða ekki kerfisflokkur sem að starfar eftir gömlu leikreglum stjórnmálanna sem nú eru mjög á undanhaldi, og ganga annars vegar út á ímyndarpólitík út á við og svo inn á við; endalausa baráttu sem líkist meira mafíudýnamík þar sem menn brosa hver framan í annan þar til þeir fá tækifæri til að stinga náungann í bakið. Það er engin framtíð í slíku stjórnmálaafli.

Ákveðið nei kom hins vegar frá Sigmundi Davíð þegar Björn Ingi sagði að sér heyrðist að viðmælandi sinn væri fráleitt að hætta í stjórnmálum:

Nei, nei það er langt frá því. Langt frá því. Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessum breytingum sem eru að eiga sér stað í stjórnmálunum. En umfram allt er ég að vona að menn beri gæfu til, hér á landi og annars staðar, að taka þessum breytingum fagnandi, því jákvæða í þeim, og bregðast við með skynsemi en ekki með því að eftirláta öfgum til hægri og vinstri sviðið. Ef að hefðbundnir stjórnmálaflokkar laga sig ekki að þessu, ef þeir verða fastir í þessari lýsingu ímyndarstjórnmálanna sem ég var með hér áðan, þá munu öfgarnar sífellt styrkja sig í sessi. Það er mikið undir.

Með því að smella hér má sjá Eyjuþáttinn á netinu. Þar var einnig rætt við Björgúlf Jóhannsson forstjóra Icelandair. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki