Eyjan

Telur ekki að Framsóknarflokkur, að minnsta kosti ekki hluti hans, verði varadekk fyrir þessa ríkisstjórn

Ritstjórn Eyjunnar skrifar
Fimmtudaginn 9. febrúar 2017 22:10
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Björn Ingi Hrafnsson í myndveri Eyjunnar.

Aðspurður um þær sögur sem gengið hafa um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar muni síðar á kjörtímabilinu taka Framsóknarflokkinn upp í til að auka meirihlutann segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, að hann sjái ekki fyrir sér að Framsóknarflokkurinn, að minnsta kosti ekki hluti hans, vilji verða varadekk fyrir ríkisstjórnina.

Fyrsti þátturinn af Eyjunni var frumsýndur í kvöld á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Hann verður framvegis á dagskrá öll fimmtudagskvöld á ÍNN kl.21:00 í umsjón Björns Inga Hrafnssonar. Gestir þáttarins að þessu sinni voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrum forsætisráðherra, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og núverandi annar þingmaður Norðausturkjördæmis og Björgúlfur Guðmundsson, forstjóri Icelandair Group.

Þátturinn hófst á minningarorðum um Ólöfu Nordal og minntust þeir Björn Ingi og Sigmundur Davíð hennar með miklum hlýhug. Sagðist Sigmundur hafa átt von á því að Ólöf yrði formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra síðar meir.

Umræðan barst svo að nýrri ríkisstjórn og slæma útreið hennar í könnunum. Sigmundur Davíð segir það áhugavert að sitjandi ríkisstjórn byrji með vinsældartölur sem séu sambærilegar við ríkisstjórn sem hafi setið lengi og sé komin á endapunkt.

Það er erfitt fyrir fólk að átta sig á því af hverju þessi stjórn var mynduð.

Sigmundur segist ekki geta séð það hvernig ríkisstjórnin undir forystu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra ætli að breyta samfélaginu. Mikið hafi um innantóma frasa á borð við að bæta mennta- og heilbrigðiskerfið í stjórnarsáttmálanum en minna um fastmótaðar hugmyndir til að framkvæma slíkt.

,,Það er ósköp lítið að frétta frá þessari ríkisstjórn.‘‘

Sigmundur segir kosningarnar í október hafa verið ,,algjöra vitleysu‘‘

Það var nánast búið að útiloka alla kosti, sagði Sigmundur um stjórnarmyndunarviðræðurnar þar sem margir flokkar útilokuðu samstarf við aðra flokka sem gerði erfiðarnar enn flóknari.

Það var algjör vitleysa að gera þetta svona, æða svona út í kosningar með svona fyrirsjáanlegum afleiðingum.

 

Hér má sjá Eyjuna í heild sinni á heimasíðu ÍNN.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af