Eyjan

Varakanslari Þýskalands vill herða baráttuna gegn öfga-íslam

Ritstjórn Eyjunnar skrifar
Mánudaginn 9. janúar 2017 09:32
Sigmar Gabriel ásamt Angelu Merkel. Mynd: GettyImages
Sigmar Gabriel varakanslari ásamt Angelu Merkel kanslara. Mynd: GettyImages

Sigmar Gabriel varakanslari Þýskalands, ráðherra í stjórn Angelu Merkel kanslara og formaður Flokks sósíaldemókrata (SPD) vill að gengið verði hart fram til að ráða niðurlögum öfgasinnaðra íslamista í Þýskalandi.

Í nýjasta tölublaði fréttatímaritsins Der Spiegel er fjallað um öryggismál í Þýskalandi í ljósi hryðjuverkaárása þar í landi. Nú síðast ók hryðjuverkamaður á vegum Íslamska ríkisins stórum vöruflutningabíl inn í mannfjölda á jólamarkaði í Berlín rétt fyrir jól. Þar fórust 12 manns en 50 slösuðust. Mildi þótti að ekki fór miklu verr.

Sigmar Gabriel kallar nú eftir mjög hertum aðgerðum og segist ekki hafa neitt umburðalyndi þegar öfgafullir múslimar séu annars vegar. Þetta kemur fram í frétt fréttaveitunnar Deutsche Welle sem byggir á viðtali við Gabriel í Der Spiegel.

„Það verður að banna moskur bókstafstrúarmanna [salafista], leysa upp hreyfingar þeirra og vísa ber prédikurum á þeirra vegum úr landi hið fyrsta. Þeir sem hvetja til ofbeldis eiga ekki að njóta þeirrar verndar sem felst í trúfrelsi.“

spiegel
Í nýjasta hefti Der Spiegel er velt upp spurningum um það hvernig berjast megi við hryðjuverkaógn sem nú er talin steðja að Þýskalandi í auknum mæli.

Gabriel kallar einnig eftir aðgerðum til bæta aðlögun innflytjenda og að þess verði gætt að fólk falli ekki í vonleysi og verði fyrir innrætingu af hálfu öfgaafla. Hann segir að vandamálið sé alvarlegt. Helmingur þeirra sem haldið hafi til Sýrlands og gengið þar í raðir hins svokallað Íslamska ríkis séu þýskir ríkisborgarar sem oft eigi þýska foreldra.

Talið er að engar öfgahreyfingar stækki jafn hratt í Þýskalandi nú um stundir og þær sem falli undir róttækan íslamisma. Þegar er unnið að því að hamla gegn þessu í þýska menntakerfinu.

Stjórnmálamenn í Þýskalandi velta því nú fyrir sér hvernig breyta megi áherslum og skipulagi þegar kemur að öryggismálum ríkisins svo mæta megi hryðjuverkaógninni. Þetta er talið vandasamt verkefni því að á sama tíma og kallað er eftir hertu öryggi þá er sú hætta ávallt fyrir hendi að gengið verði of langt.

Kosningar til þýska Sambandsþingsins verða í haust. Talið er að innflytjendamál geti þar orðið að hitamáli.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Dularfull veikindi