fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Atlaga að tónlistarmenntun á Íslandi – ábyrgð Reykjavíkurborgar

Egill Helgason
Miðvikudaginn 29. október 2014 21:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjóri, skrifa mjög tímabæra grein um tónlistarmenntun í landinu í vefritið Herðubreið – nú þegar verkfallsdeila tónlistarkennara er í algjörum hnút og þúsundir tónlistarnema eru án tilsagnar og fræðslu.

Indriði skrifar undir greinina sem formaður stjórnar þeirrar merku stofnunar Tónskóla Sigursveins.

Það er auðvelt að gleyma þessu verkfalli þegar læknar hafa líka lagt niður vinnu en Indriði segir að ekki eiga að láta þá sem hafa veika samningsstöðu gjalda þess. Uppi sé krafa um sjálfsagða leiðréttingu á kjörum tónlistarkennara, til samræmis við aðra kennara, en svo virðist sem samninganefnd sveitarfélaganna ætli að beita þá „afarkostum“ eins og Indriði orðar það.

Þeim sem fara með almannavald við gerð kjarasamninga við opinbera starfsmenn ber skylda til að gæta eftir megni innbyrðis samræmis milli starfsmanna en láta ekki þá sem af einhverjum ástæðum kunna að hafa veika samningsstöðu gjalda þess. Sveitarfélög landsins og ríkið hafa nýlega samið við kennara við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þessir samningar hafa árum saman verið viðmiðun fyrir tónlistarkennara enda viðfangsefni sambærileg og menntunarkröfur svipaðar.

Samninganefnd sveitarfélaganna hefur í yfirstandandi 11 mánuða samningalotu ekki verið til viðræðu um breytingar til að samræma launakjör tónlistarkennara og annarra kennnara og virðist ætla að beita þá afarkostum. Samninganefndin starfar í umboði sveitarstjórna, sem eiga að bera ábyrgð á tónlistarfræðslu. Þar ætti Reykjavíkurborg að vera fremst í flokki enda nýtur hún öðrum sveitarfélögum fremur blómlegs tónlistarlífs. Borgarstjórn Reykjavíkur þarf að hafa frumkvæði að því að sveitarfélögin sýni að þau séu þess megnug að halda á lofti þeim kyndli sem kveiktur var fyrir hálfri öld og á svo stóran þátt í því að gera Reykjavík að þeirri menningarborg sem hún er.

Rétt er það hjá Indriða, maður hlýtur að spyrja hvað borgarstjórnin í Reykjavík er að hugsa í þessu máli og fulltrúar hennar í samningaviðræðunum?

Indriði rekur sögu þess að tónlistarmenntun varð með slíkum blóma á Íslandi sem raun ber vitni. Þjóð sem átti sama og enga músík varð tónlistarþjóð á fáum áratugum. Og eins og Indriði segir auðgar þetta mannlíf og menningu, en hefur líka efnahagsleg áhrif. Tónlistin er stór atvinnugrein – og íslenskir tónlistarmenn bera hróður þjóðarinnar víða.

Indriði nefnir Gylfa Þ. Gíslason menntamálaráðherra sem beitti sér fyrir því að hér voru sett lög um tónlistarmenntun – Gylfi var menningarlega sinnaður maður, kúltúrmaður í húð og hár. Það er eins og núorðið sé skortur á slíku fólki í röðum stjórnmálamanna.

En Indriði segir að fyrir hálfum öðrum áratug hafi verið gerð sú breyting á tónlistarfræðslunni að hún var flutt til sveitarfélaga. Indriði telur að þetta hafi ekki gefist vel.

Fyrir um hálfum öðrum áratug var illa undirbúin breyting gerð á tónlistarfræðslu þegar hún var að fullu flutt til sveitarfélaga. Þeim var fengið fjármagn til fræðslunnar en án þess að um leið væri kveðið á um skyldu þeirra og ábyrgð í þeim efnum. Síðan hefur hallað undan fæti og tónlistarfræðslan orðið hálf umkomulaus.

Mörg sveitarfélög hafa að vísu staðið sig vel og reka eigin tónlistarskóla með ágætum. Hið sama verður ekki sagt um atlæti við þá tónlistarskóla sem ekki eru reknir af sveitarfélögum en þurfa að treysta á framlög úr sveitarsjóðum til að geta boðið tónlistarnemum sómasamlega þjónustu. Eins og verða vill þegar sýtingsamir ráðamenn láta stjórnast af skammtímahagsmunum hafa viðkomandi sveitarfélög og Samband ísl. sveitarfélaga nýtt sér veika stöðu skólanna og forsvarsleysi þeirra og þrengt hefur verið að þeim. Þessari atlögu að tónlistarfræðslu er nú fylgt eftir í kjarasamningum við tónlistarkennara.

1932290_10205460353533942_3379908807030841608_n

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt