Eyjan

Um íþróttir og tónlistarnám

Egill Helgason
Laugardaginn 29. janúar 2011 13:54

Vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í tónlistarnámi í Reykjavík hefur spunnist talsverð umræða um framlög til tónlistarmenntunar annars vegar og íþróttastarfs hins vegar. Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari hefur til dæmis tekið saman tölur þar sem virðist halla nokkuð á tónlistina.

Rómverska spakmælið um heilbrigða sál í hraustum líkama á ágætlega við. Margir foreldrar vilja að börn sín séu hvort tveggja í íþróttum og tónlist.

Strákurinn minn er í fótbolta og líka í píanónámi. Þetta getur farið ágætlega saman. En mér sýnist vandi íþróttastarfsins vera sá að því er stjórnað af mönnum sem eiga erfitt með að losna út úr hugmyndaheimi afreksíþróttanna. Þannig eru ungir krakkar á æfingum 3-4 sinnum í viku og tíminn jafnvel notaður til að hlaupa eða gera styrktaræfingar í stað þess að þetta sé fyrst og fremst leikur. Með þessu er líkt og sé verið að skilja hafrana frá sauðunum, að það sé verið að vinsa út þá sem eru ekki líklegir til að ná árangri á íþróttavellinum.

Staðreyndin er samt sú að það á við um fæst barnanna. Það er minnihluti sem fer alla leið upp í meistaraflokka í íþróttum. Í raun er líka spurning hversu eftirsóknarvert hlutskipti það er að vera afreksmaður í íþróttum. Móðir ellefu ára drengs sem æfir fótbolta sagði mér um daginn að hann og vinir hans væru komnir með álagsmeiðsli eftir þrotlausar knattspyrnuæfingar. Ferillinn er stuttur og fórnarkostnaðurinn ansi hár. Það eru ekki margir sem verða atvinnumenn í útlöndum. Knattspyrna getur orðið kvöð fyrir krakka ef hún er stunduð með þessum hætti á barnsaldri. Kappleikir við önnur félög sem eru stundaðir alveg frá sex til sjö ára aldri magna keppnisandann – sem ég er heldur ekki viss um að eigi að vera tilgangur starfsins.

Kannski væri sniðugt að blanda meira saman íþróttagreinunum, þannig að börn gætu til dæmis verið ýmist í fótbolta, handbolta, körfubolta, frjálsum íþróttum og fleiri greinum áður en þau ákveða hvaða íþrótt þau vilja leggja stund á.

Mér hefur sýnst að viðhorfið sem ríkir í tónlistarmenntuninni sé heilbrigðara. Það er vitað að fæst börn sem hefja nám í píanóleik verða einleikarar. Tilgangurinn er frekar sá að börnin þroskist í gegnum tónlistina og að hún veiti þeim ánægju. Maður finnur hins vegar að námið hangir á bláþræði, það er búið að skera mikið niður, biðlistar eru langir og kennslutímarnir stuttir. Það er takmarkað hvað er hægt að kenna á hljóðfæri í hóptímum.
Aðalmálið er að finna jafnvægi milli íþrótta og listiðkunar. Eins og stendur finnst manni að íþróttirnar séu óþarflega frekar til fjörsins.  Við viljum að börnin okkar verði heilbrigðir einstaklingar, en okkur dreymir fæst um að sjá þau leika fótbolta á erlendum knattspyrnuvelli eða spila á hljóðfæri með Berlínarfílharmóníunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bent fagnar 35 árum